Við erum spennt að kynna nýja hvíta og gráa litasamsetningu af Urban Nomad vegghillunum, sem verðlaunahönnuðurinn Jón Helgi Hólmgeirsson hannaði fyrir FÓLK. Hillurnar voru fyrstu vörurnar sem FÓLK setti á markað, fyrir jólin 2017. Hvíta og gráa litasamsetningin kemur einstaklega vel út í ljósu umhverfi.
Hillan er framleidd í Evrópu og hönnuð til að endast lengi. Hún er aðeins gerð úr hreinum hráefnum; gegnheilum aski, FSC vottuðum frá sjálfbærum skógi og endurunnu stáli sem styður markmið um hringrás hráefna í samræmi við hönnunarstefnu FÓLKs. Ekkert plast er notað í pakkningar hillunnar og hún kemur í flötum pakkningum.
Margnota hillur fyrir öll herbergi!
Í dag er komin mjög góð reynsla af Urban Nomad hillunum. Þær nýtast ein eða margar saman hvort sem er í stofunni, eldhúsinu, barnaherberginu eða svefnherberginu. Það má kaupa slá og króka á þær og þannig nýtast þær vel til að hengja hluti á sem er vinsæll eiginleiki.
Hillurnar voru hannaðar til þess að vera umhverfisvænar. Þær hafa hátt burðarþol og geta dugað lengi, þola flutninga vel og eru úr hreinum hráefnum, þannig að auðvelt er að gera við þær til að lengja endingartímann.
Við höfum sýnt Urban Nomad hillurnar á sýningum í París og Stokkhólmi og þær vekja ávallt mikla athygli, ekki síst hjá innanhúshönnuðum sem taka eftir minnstu smáatriðum í hönnuninni.